Bóknám

Markmiðið er að nemendur læri:
– að þekkja helstu næringarefni líkamans og hvaða hlutverki þau gegna
– og kynni sér vel manneldismarkmið manneldisráðs
– um rétt matarræði og notkun næringartaflnanna
– að reikna út næringargildi matvæla

Nemendum er ætlað að öðlast nokkra þekkingu á uppruna matvæla, næringargildi og meðferð þeirra. Þeir læra hvernig hvernig sú fæða sem við neytum daglega verður til, hvaðan hún kemur, hvaða meðhöndlun hún hefur fengið og hvernig er best að geyma hana.

Næringarfræði – NÆR 1012
Undanfari: Enginn

Námsefni: Næring og hollusta, höfundur Elísabet Magnúsdóttir

Áfangalýsing
Lögð er áhersla á að nemendur öðlist þekkingu á næringarefnunum og gildi þeirra fyrir líkamann og heilbrigt líf. Nemendur læra um ráðlagða dagskammta, manneldismarkmið og að velja rétt matvæli og matreiðsluaðferðir til að næringarefnin spillist sem minnst. Nemendur læra að nota næringarefnatöflur, reikna út hitaeiningar og næringargildi fæðunnar. Lögð er áhersla á að nemendur þekki hvað transmettaðar fitusýrur séu og í hvaða fæðutegundum þær er helst að finna ásamt því hvað er mettuð fita. Nemendur læri einnig að gera greinarmun á mismunandi tegundum kolvetna t.d. hvítum sykri, ávaxtasykri eða mjölvöru. Nemendur læri um mismunandi fæðu og orkuþörf manna eftir starfi, aldri og heilsu. Einnig er farið í hver er munurinn á skyndibitafæðu og heimalöguðum mat úr fersku hráefni.

Kennslumarkmið
Markmið námsins er að nemandi viti hvar næringarefni, vítamín og steinefni sé að finna. Geri sér grein fyrir hlutverki næringarefna fyrir líkamann ásamt hvaða afleiðingar skortur tiltekinna vítamína eða steinefna geta haft. Nemendur eiga að þekkja fæðuflokkanna, hitaeiningagildi þeirra og hlutverk þeirra ásamt hvaða næringu við fáum úr þeim.
Með þessari þekkingu eiga nemendur að geta áttað sig á næringargildi, hitaeiningum og hollustu fæðutegunda með því að lesa utan á umbúðir matvæla.
Að námi loknu á nemandi að geta nýtt sér þekkingu sína sér og öðrum til hagsbóta.

Kennsluverkefni
Nemendur vinna spurningar sem eru til staðar í verkefnabók í lok hvers kafla og skila til kennara.

Verkefnaskil
Nemendur skila svörum við kaflaspurningum í lok yfirferðar hvers kafla fyrir sig. Skila skal svörunum áður en yfirferð næsta kafla hefst.

Námsmat
Lokaeinkun skiptist upp á eftirfarandi hátt:
Lokapróf 60%
Verkefni 20%
Mæting 20%

Vörufræði – VOR 1012
Undanfari: Enginn

Námsefni: Vörufræði 1 höfundur Bryndís Steinþórsdóttir

Áfangalýsing
Fjallað er um matvörur, hvaðan þær eru upprunar og vinnsluferli við framleiðslu þeirra. Nemendum er gerð grein fyrir náttúrulegum og lífrænt ræktuðum matvörum og læra einnig sögu matvara, þróun gegnum tíðina og breytingar á vinnslu matvara með aukinni þekkingu á næringarefnum en þar er alltaf eitthvað nýtt að koma fram.
Nemendur læra að lesa út úr upplýsingum á pakkningum s.s. hvað er síðasti neysludagur og síðasti söludagur og vega og meta þessar upplýsingar. Farið eru yfir Gámeskerfið og þýðingu þess fyrir matvælaiðnaðinn. Nemendur læra um E efnin, afhverju E efni eru sett í matvæli og flokkun þeirra. Nemendum er einnig kynntar reglugerðir varðandi aukaefni.

Kennslumarkmið
Markmið áfangans er að nemendur þekki matvöru og uppruna þeirra og að nemendur hafi þekkingu til að velja matvörur sem uppfylli allar hollustukröfur hvað varðar næringu og hreinleika. Markmið er einnig það að nemendur láti ekki auglýsingar hafa áhrif á val þeirra á matvörum, heldur afli upplýsinga um sannleiksgildi þeirra. Nemandi á að geta lesið úr og skilið þær upplýsingar sem eru á umbúðum matvara.

Námsmat
Lokaeinkun skiptist upp á eftirfarandi hátt:
Próf 80%
Mæting 20%