Matreiðsla

Markmiðið er að nemendur læri öll undirstöðuatriði í almennri matreiðslu og fjölbreyttar matreiðsluaðferðir hinna ýmsu fæðutegunda.
Lögð er áhersla á:
– að útbúa aðalrétti bæði kjöt og fisk til hversdags og hátíða
– að matreiða forrétti svo sem súpur, fiskrétti og salöt
– að matreiða ábætisrétti til hversdags og hátíða
– að nemendur nái færni í að baka fín og gróf brauð
og tileinki sér þær grunnaðferðir sem notaðar eru við bakstur
– að búa til sultu og saft

Að auki fer fram sláturgerð á haustönn og eru nemendur fræddir um aðalatriði þar að lútandi.
Einnig er mikil áhersla lögð á hreinlæti við matreiðslu og í eldhúsi. Nemendum er kennt að tileinka sér notkun á viðeigandi áhöldum til matreiðslunna.

Matreiðsla – HUS 1036, 2036
Undanfari: Enginn

Námsefni:
Matreiðsluhefti samantekt Hjördís Stefánsdóttir
Eldað í dagsins önn höfundur Stefanía Valdís Stefánsdóttir
Ýmis ljósrit og bæklingar
Hreinlætisfræði höfundur Elísabet Magnúsdóttir og Sædís Karlsdóttir

Áfangalýsing
HUS 1036 og 2036 eru kennd samhliða. Námið felst í því að nemendur fái þjálfun í grunnaðferðum í matreiðslu. Kennt er vinnuskipulag, aðferðarfræði og tækni til matargerðar. Lögð er áhersla á hreinlæti við matargerð og umgengni um eldhús en einnig er lögð áhersla á meðferð matvæla og varðveislu næringarefna við matargerð. Kennd er almenn heimilismatreiðsla ásamt fjölbreyttari og viðameiri matargerð. Lögð er áhersla á brauð og gerbakstur ásamt því að kenna nemendum annan bakstur. Nemendur læra einnig að leggja á borð og bera fram mat.

Kennslumarkmið
Markmið náms er að nemendur fái þekkingu og þjálfun í grunnmatreiðslu og bakstri og geti nýtt sér þekkingu sína til að elda allan almennan heimilismat ásamt því að geta nýtt sér námið til að afla sér frekari þekkingar og menntunar á sviði matvæla.

Áhersla er lögð á hreinlæti, vinnuskipulag og vinnuaðferðir og að nemandi hafi að loknu námi góða þekkingu á hráefni og meðferð þess. Nemandi hafi kunnáttu til að áætla magn matvæla til matargerðar ásamt því hvernig best er að matreiða hráefni með tilliti til varðveislu næringarefna. Nemendur læri að framreiða mat bæði fyrir veislu og hversdags og öðlist þekkingu í veislusiðum sem einnig tengist áfanganum um lífsleikni, ásamt almennum borðsiðum.

Kennsluáætlun
Í upphafi annar byrjar helmingur nemenda í eldhúsinu og er þar hálfa önnina. Við komu í eldhús er nemendum skipt niður á viss númer en númerið tilgreinir það vinnusvæði sem nemandi vinnur í og hefur ákveðnum störfum að gegna á því svæði. Vikulega, þ.e. hvern mánudag, skiptir nemandi um númer og færist yfir á annað vinnusvæði og fær önnur verkefni til að vinna. Númerinn eru þrjú og þetta tryggir að nemandi fái kennslu á öllum verkþáttum sem kenndir eru í eldhúsinu.
Nemendur fá eyðublað sem þeir merkja inn á jafnóðum til að tryggt sé að þeir hafi lokið öllum þeim verkefnum sem lagt var upp með.
Þegar nemendur eru að ljúka tímabilinu í eldhúsi býður hver þeirra 3-4 gestum til veislu sem haldin er á föstudagskvöldi. Þarna hafa nemendur tækifæri að sýna kunnáttu sína.

Kennsluverkefni
Útfærsla á áfanga er misjöfn eftir árstíðum en á haustin er sláturgerð ásamt almennum hauststörfum hvað varðar jarðargróður. Á haustönn er einnig undirbúningur jóla, t.d. laufabrauðsgerð og annað sem tilheyrir þeim tíma. Á vorönn er námið sniðið að bolludegi og sprengidegi ásamt páskum.

Það helsta sem tekið er fyrir í náminu er eftirfarandi:
Heimilismatur
Ítalskur matur
Mexikóskur matur
Austurlenskur matur
Smurt brauð
Afmæliskaffi
Súpur og brauð
Smáréttir
Afgangar nýttir
Sultu- og saftgerð
Smáköku og kleinubakstur
Veisla fyrir 70-80 manns

Opið hús er einu sinni á önn þar sem allir nemendur hjálpast að í eldhúsi og borðstofu við að sjá um kaffi og kökuveitingar.

Verkefnaskil
Nemendur fá möppur þar sem safnað er saman öllum ljósritum, glósum og blöðum með ýmsum upplýsingum sem varða kennslu í eldhúsinu ásamt matseðlum. Nemendur merkja jafnóðum inn á yfirferðarlista verkefni og aðferðir sem þeir hafa lært og tryggja að skoða listann reglulega ásamt kennara til að sannreyna að ekkert vanti inn í námið.
Hafi nemandi verið veikur eða ekki getað verið í tíma fær hann tækifæri til að vinna upp það sem upp á vantar.
Í lok annar skilar nemandi verkefnamöppu til prófs.

Námsmat
Metin eru vinnubrögð, áhugi, frágangur og umgengni ásamt framför sem nemandi hefur sýnt yfir tímabilið. Tekið er tillit til mætingar ásamt mætingu þeirra sem sjá um morgunmat. Vinnumappa er einnig metin.
Verklegt próf er haldið. Í matreiðsluprófi er utanaðkomandi prófdómari

Lokaeinkun skiptist upp á eftirfarandi hátt:
30% lokaeinkunnar byggir á mati kennara yfir kennslutímabilið.
10% verkefnamappa
20% mæting
40% próf