Skólanámsskrá

Skólanámsskrá

Í námsskránni eiga að vera allar upplýsingar um starfsemi Hússtjórnarskólans í Reykjavík en í henni er fjallað um stefnu og rekstrarfyrirkomulag skólans sem og markmið, áherslur í námi gagnvart nemendum og sérstöðu skólans. Einnig er fjallað um skólareglur, húsreglur, kostnað og hvað þar er innifalið. Saga og stofnun skólans er rakin í stuttu máli.
Námskrá skólans er listuð upp þar sem fjallað er um námstilhögun og farið yfir hvern námsáfanga fyrir sig og síðan ítarlegri áfangalýsingar.
Stefna skólans
Stefna skólans er að kenna nemendum hefðbundna matargerð sem nýtist þeim í daglegu lífi sem og að kynna þeim gamlar matreiðsluaðferðir og matarhefð. Nemendur kynnist nýjungum í matargerð ásamt því að læra um framandi rétti og vörur sem notaðar eru í erlendri matargerð.
Stefna skólans í handmenntagreinum er að nemendur geti nýtt sér og aukið þekkingu sína við saum, prjón, hekl og vefnað og búið til flíkur og aðra nytsamlega hluti sér og öðrum til ánægju og gleði.
Stefnt er að því að skólinn haldi áfram að kenna ungu fólki þær greinar sem kenndar eru í hússtjórnarskólum og mikilvægi þess að lifa heilbrigðu lífi.
Skólinn haldi áfram að eflast, verði áfram vel kynntur og öðlist fastann sess í menntakerfinu.
Starfsemi skólans er í gömlu húsi og því er ekki aðstaða fyrir fatlaða nemendur (engin lyfta).
Stefnumið skólans
Skólinn er lítill, nemendur eru fáir og ef þess er þörf fá þeir einstaklings kennslu og aðstoð án þess að það komi niður á öðrum nemendum.
Að kennarar miðli þekkingu sinni til nemenda, hver á sínu sér sviði.
Að nemendur læri að nýta auðlindir lands og sjávar og umgengni við landið.
Skólinn nýti sér það að vera staðsettur í miðri höfuðborg landsinns og nemendur fái leiðsögn um borgina og sögu hennar.
Markmið skólans
Veita nemendum menntun sem mun nýtast þeim í daglegu lífi.
Veita nemendum upplýsingar um framhaldsnám.
Að námið undirbúi nemendur undir störf í greinum tengdu námi þeirra.
Markmið skólans er að nemendur og kennarar séu glaðir og sáttir við starf sitt og nám.
Nemendur læri vandvirkni, sjálfstraust þeirra og frumkvæði aukist, og að nemendur læri að vera glaðir og sáttir við lífið og tilveruna.
Að markmið náist bæði hvað varðar 85% skólasókn og verkefnaskil.
Áhersluatriði í starfi skólans.
Auka sjálfstraust nemenda hvort sem er við nám í skólanum eða út í hinu daglega lífi.
Auka víðsýni nemenda og samkennd með öðrum.
Efla frumkvæði nemenda og nemendur læri tilitsemi gagnvart öðrum.
Einelti er ekki liðið í skólanum.
Lögð er áhersla á gagnrýna hugsun, heiðarleika og vönduð vinnubrögð.
Lögð er áhersla á mætingu þ.e. mæta á réttum tíma hvort sem er í kennslustund eða til annarra starfa.
Lögð er áhersla á notkun umhverfisvænna hreinsiefna.
Lög er áhersla á að flokka rusl og nýta heimilisúrgang og nota húsmuni og annað þótt hlutirnir séu ekki nýir.
Skólinn er smár eingöngu 24 nemendur, 15 geta verið á heimavist, þannig að frekar þröngt er setið og taka verður tillit til annarra og bera virðingu fyrir skoðunum og eigum þeirra.
Nemendur ræða sjálfsmat við kennara og einnig við skólameistara ef þeir eru ekki sáttir við árangur og niðurstöðu.
Um skólann
Hússtjórnarskólinn í Reykjavík er í einu af fallegasta húsi borgarinnar sem er kjallari tvær hæðir, ris og háaloft. Húsið var byggt í kring um 1920 sem einbýlishús en var keypt 23. janúar 1941 fyrir tilstuðlan Bandalags kvenna í Reykjavík sem staðið höfðu fyrir fjársöfnunum til stofnunar hússtjórnarskóla í Reykjavík. Skólinn tók til starfa 7. febrúar 1942 og hefur verið rekinn sem slíkur síðan þá.
Í skólanum er góður andi og líður nemendum og kennurum afar vel þar. Skólinn er ekki með hjólastóla aðgengi og engin lyfta er í húsinu.
Í skólanum eru 24 nemendur á hverri önn og geta 15 af þeim búið á heimavist hverja önn. Á heimavist ganga nemendur utan af landi fyrir og sérstakar húsreglur gilda fyrir þá nemendur sem þar búa. Almennar skólareglur eru síðan í gildi fyrir alla nemendur skólans.
Boðið er upp á 26 eininga nám á hverri önn samkvæmt eininga og áfangakerfi framhaldsskóla í hússtjórnar og handmenntagreinum. Nemendur þurfa að vera í öllum námsgreinum skólans.
Á hverri önn er farið með nemendur í skólafferðalag til Þingvalla, Laugarvatns, Skálholts og Sólheima og fengin er leiðsögn um staðina og sagan sögð. Á haustin er einnig farin dagsferð í berjamó og næstu daga á eftir er unnið úr uppskerunni.
Nám við skólann stuðlar að og undirbýr nemendur til frekara náms við verkmenntabrautir t.d. matvælanám, fatahönnun og kennaranám í textíl og hússtjórnargreinum. Einnig greiðir það fyrir þeim sem leita, án freka náms, eftir vinnu við framreiðslu og ræstistörf sem og í mötuneytum. Námið er einnig góður undirbúningur fyrir nemendur til að geta séð um sig sjálfir í lífinu og haldið heimili fyrir einn eða fleiri.
Frásagnir útskrifaðra nemenda
Námið hefur nýst mér vel, fékk launahækkun vegna námsins við Hússtjórnarskólann.
Fékk starf sem aðstoðarkona í handavinnu og föndri á elliheimili vegna náms við skólann.
Yndislegur tími og sá besti sem ég hef átt, lærði mikið og á eftir að búa að því alla æfi.
Stjórnun skólans
Rekstrarform skólans og fjármögnun
Skólinn er rekinn sem sjálfseignarstofnun og stefnt er að því að hann hljóti viðurkenningu sem einkaskóli. Menntamálaráðuneytið styrkir rekstur skólans samkvæmt sérstökum samningi sem undirritað var sumarið 1998.
Skólinn aflar einnig sértekna með útleigu húsnæðis til námskeiðahalds og útleigu á heimavist yfir sumartímann í samvinnu við Háskóla Íslands.
Bakhjarl skólans er Bandalag kvenna í Reykjavík.
Bandalag kvenna í Reykjavík skipar skólanefnd skólans sem jafnframt er stjórn hans. Skólanefnd kýs formann og ritara.
Skólanefnd skipa eftirfarandi:
Guðlaug Jónína Aðalsteinsdóttir, skólanefndarformaður
Sigríður Sigurðardóttir, ritari
Margrét Sigurðardóttir
Geirlaug Þorvaldsdóttir
Þórey Guðmundsdóttir
Skólanefnd hittist einu sinni í mánuði yfir skólaárið og skilgreinir verkefni sín og ábyrgð í samræmi við 7. gr. laga um framhaldsskóla nr. 80/1996 og reglugerð um skólanefndir við framhaldsskóla nr. 132/1997 eftir því sem við á um sjálfseignarstofnun.
Starfsmenn
Menntun og hæfniskröfur starfsmanna
Kennarar
Kennarar eru ráðnir samkvæmt reglum og kjarasamningum Kennarasambands Íslands.
Allir kennarar skólans eru með réttindi framhaldsskólakennara.
Kennarar innan skólans eru þrír auk skólameistara og starfa hver um sig sem deildastjóri í sínu fagi og hafa yfir umsjón með því.
Kennurum ber að fylgjast með nýjungum á sínu sviði og leitast við að öll kennslugögn séu eins og best verður á kosið. Kennarar vinna saman og auka þannig tengsl á milli greina. Hver kennari fyrir sig metur námið í þeirri námsgrein sem þeir kenna og vinna þeir einnig með skólameistara við þróun, stefnu og í daglegri stjórnun skólans.
Skólameistari
Skólameistari veitir skólanum forstöðu og er framkvæmdastjóri hans. Hann er ráðinn af skólanefnd og stjórnar daglegum rekstri skólans í umboði hennar. Skólameistari sér til þess að starf skólans sé í samræmi við lög og reglugerðir, aðalnámsskrá framhaldsskóla og eftir gildandi fyrirmælum menntamálaráðuneytisins.
Skólameistari er með réttindi sem framhaldsskólakennari og sinnir einnig daglegri kennslu innan skólans.
Kennarafundir
Kennarafundir eru haldnir á tveggja vikna fresti þar sem framvindun náms er rædd ásamt ástundun og framfarir nemenda eru metnar. Einnig er starfsemi skólans rædd og breytingar gerðar ef þurfa þykir.
Réttindi og skyldur nemenda
Innritun nemenda
Skólameistari er ábyrgur fyrir inntöku nemenda í skólann. Inntökuskilyrði fyrir skólagöngu er grunnskólapróf en með umsókn skal fylgja afrit af prófskírteini nemanda því til staðfestingar. Eldri nemendur hafa forgang inn í skólann og er einnig farið eftir því hvenær umsóknir berast.
Nemandi sendir inn umsókn á þar til gerðu eyðublaði eða rafrænt beint til skólans. Nemandi undir 18 ára aldri þarf að hafa undirskrift foreldra eða forráðamanns á umsókninni.Hvað varðar nemendur undir 18 ára aldri hefur skólameistari leifi til að veita foreldrum upplýsingar um framvindum náms og leitað aðstoðar ef þess þarf t.d. við brot á skólareglum, veikindi og annað sem upp getur komið.
Með greiðslu staðfestingargjalds staðfestir nemandi að hann ætli sér að stunda nám við skólann og um leið að hlíta reglum skólans.
Ef nemandi er fatlaður eða á við veikindi að stríða þarf hann að láta vita og láta skólann fá allar þær upplýsingar sem skólinn krefst til að meta hvort skólinn geti þjónað nemandanum eins og þörf er á. Því miður hefur skólinn ekki aðgengi fyrir hreyfihamlað fólk.
Komið er til móts við nemendur með sérþarfir eins og t.d. lesblindu. Nemendur með mikinn prófkvíða og lesblindu gefst kostur á að taka munnleg próf í stað skriflegra.
Skólareglur
Almennar skólareglur
Eftirfarandi eru skólareglur Hússtjórnarskóla Reykjavíkur:
Mætingarskylda er 85%. Mæting reiknast fyrir hverja kennslustund og hefur áhrif á lokaeinkunn.
Skyldumæting er í bóklegar og verklegar greinar, svo og í morgun og hádegismat. Nemendur sem hafa umsjón með morgunmat mæti í eldhúsklæðnaði til starfa.
Nemendum er ekki heimill aðgangur að ljósritunarherbergi og kennarastofu.
Ath: Ekki má fara með kennslugögn upp á herbergi eða út úr húsi nema með leyfi kennara.
Umgengni skal vera góð og virðing borin fyrir eigum skólans innan dyra sem utan.
Nemendur skulu halda utan um eigur sínar og ekki láta þær liggja um allt hús.
Fatnaður í eldhúsi skal vera viðeigandi, og eru inniskór nauðsynlegir.
Umgengni um þvottahús skal vera eftir settum reglum.
Símar, farsímar, hringingar í og úr síma og ipod eru ekki leyfðar á skólatíma,
Sælgæti, drykkjarföng og neysla annarra matvæla eru ekki leyfð í kennslustundum.
Reykingar eru ekki leyfðar í skólanum.
Áfengisneysla er bönnuð innan dyra skólans, einnig á lóð skólans.
Sjónvarp: Óleyfilegt er að hafa kveikt á sjónvarpi meðan á kennslu stendur.
Skólinn er lokaður í skólafríum ( vetrarfrí og páskafrí )
Húsið skal ávallt vera læst.
Húsreglur
Allir nemendur sem búa í skólanum verða að hlíta þessum reglum, ef þeir telja sig ekki geta það, verða þeir að flytja úr heimavistinni.
Reykingar eru ekki leyfðar í skólanum.
Áfengisneysla er bönnuð innan dyra skólans og á lóð skólans, einnig er bannað að eiga og geyma áfengi innan veggja skólans.
Notkun eldfæra er stranglega bönnuð á heimavist, þ.m.t. notkun kerta.
Gestir eiga að vera farnir úr húsinu kl. 23, og á það bæði við virka daga og um helgar.
Gestir: Engir gestir á heimavist meðan á kennslu stendur.
Kyrrð skal vera komin á kl.23 alla daga.
Látið vita ef ykkur seinkar heim á kvöldin, skrifið athugasemdir í bók sem er niðri í anddyri.
Hafið góða samvinnu við húsvörðinn og hlítið boðum hans.
Umgengni á heimavist skal vera til fyrirmyndar, og herbergjum og salernum haldið hreinum og snyrtilegum. Ath: metið er til einkunnar hvernig nemendur sjá um þrif á sameign.
Nemendur skuli þvo persónulegan þvott utan kennslutíma.
Nemendur á heimavist sjá um sig sjálfir í kvöldmat og um helgar .
Um helgar er oftast fámennt í skólanum, nemendur sem eru þar hafa aðgang að mat skólans eins og hverju öðru heimili.
Nemendur skili eldhúsi hreinu og uppröðuðu eftir kvöldverð og helgar.
Húsið skal ávallt vera læst.
Ef þið teljið á hlut ykkar gengið, komið þá og ræðið málið.
Dagleg ástundun og tímatafla
Skyldumæting er í morgunverð kl: 08.00
Kennsla hefst kl: 08.30
Hádegisverður kl: 12.00 skyldumæting.
Kennsla heft í handavinnu kl: 12.50
Kennsla hefst í vefnaði kl: 13.20
Kennsla hefst í prjóni kl: 13.30
Eftirmiðdagskaffi hefst kl: 15.00
Kennsla hefst aftur kl: 15.20
Kennt ýmist til kl: 16.10 eða til kl: 16.50
Föstudaga er kennt frá kl:08.00 – 12.00
Tvo föstudaga á önn er kennsla allan daginn frá kl: 08.00-22.00 ( foreldraboð )
Einn laugardagur á önn er kennsla frá kl: 10.30-18.00 ( opið hús )
Kostnaður við skólavist
Kostnaður við einnar annar nám er kr. 390.000-420.000
Innifalið er:
Máltíðir þ.e. morgun og hádegisverður ásamt miðdagskaffi.
Tvö foreldraboð og allt efni til ræstinga.
Nemendur fá öll námsgögn afhent til eignar.
Allar kennslubækur hvor sem er í matreiðslu, handavinnu eða bóklegum greinum, ritföng, möppur, ljósrit, skriffæri.
Allt efni í vefnað, prjón, og handavinnu.
Nemendur skila ekki prufum heldur heilum stykkjum og flíkum.
Nemendur fá prjónasett í öllum stærðum og lengdum, heklunálar, þrenn skæri þ.e sníðaskæri, útsaumsskæri og pappírsskæri.
Nemendur fá prjóna og útsaumstöskur, ásamt tveimur töskum sérmerktar skólanum til að vera með kennslugögn í .
Nemendur fá títuprjónabox, segla, málbönd og saumahringi, reglustiku ásamt ýmsu fleira.
Eina sem nemendur þurfa sjálfir að kaupa er lopi í peysu og efni í kjól. Skólinn ásamt kennurum hver í sínu fagi sjá um innkaup á námsefni og er það gert á sem hagkvæmasta máta.
Greiðslufyrirkomulag
Staðfestingargjald er kr. 40.000 og er óafturkræft. Nemendur greiða kr. 220.000 áður en skóli hefst og á miðri önn greiðist kr. 120.000. Í lok annar greiðast eftirstöðvar og hafa nemendur tvo mánuði til að greiða eftirstöðvar.
Námið
Í upphafi annar fá nemendur öll námsgögn og námsvísi frá kennurum ásamt upplýsingum um áfangann og markmið hans. Í námsvísi koma fram upplýsingar um vægi mætingar og ástundunar ásamt námsmati og tilhögun þess. Einnig koma fram upplýsingar um vægi annarvinnu og verkefnaskila sem hafa áhrif á heildareinkunn við einkunnargjöf.
Námsgreinar yfirlit
Yfirlit yfir námsgreinar sem kenndar eru
Lífsleikni
LKN 101
Matreiðsla
HUS 1036, 2036
Næringarfræði
NÆR 1012
Vörufræði
VOR 1012
Þvottur og ræsting
HRL 1024
Fatasaumur
SAU 1034, 2224
Útsaumur
UTS 1034
Prjón
PRJ 1034
Vefnaður
VEF 1036
Hekl
HEK 1024
Yfirlit yfir áfangamarkmið námsgreina
Lífsleikni – LKN 101 (án eininga)
Á önninni er nemendum kynnt ýmislegt sem getur gagnast þeim í lífinu svo sem berjaferð, ferð um höfuðborgina, þæfing, brunavarnir, borðsiðir og almenn kurteisi, getnaðarvarnir og heilbrigt líferni.
Matreiðsla – HUS 1036
Markmið námsins er að nemendur öðlist þekkingu og færni í grunnmatreiðsluaðferðum. Áhersla er lögð á að nemendur læri einfaldar bakstursaðferðir bæði í brauð og kökugerð, vinnuskipulag og verkaskiptingu, læri og skilji mun á ferskum og nýjum matvælum og unnum vörum sem og að nemendur læri umgengni og hreinlæti hvað varðar matvæli og vinnusvæði.
Matreiðsla – HUS 2036
Markmið námsins er að auka þekkingu nemenda á viðameiri matargerð og bakstri. Nemendur öðlist þekkingu á meðferð hráefnis bæði til matargerðar og geymslu og að nemendur læri að leggja á borð og bera fram mat.
Kennt samhliða áfanga 1036.
Næringarfræði – NÆR 1024
Markmið námsins er að nemendur öðlist þekkingu á næringarefnum og gildi þeirra fyrir líkama og vellíðan. Nemendur læri um dagskammta og áhrif matreiðslu og geymsluaðferða á næringargildi matvæla. Einnig eru kynnt manneldismarkmið, flokkun næringarefna, ásamt því að nemendur læri að reikna út næringargildi. Nemendur læri einnig mun á almennu fæði, sérfæði og skyndibitamat.
Vörufræði – VOR 1012
Markmið námsins er að nemendur fái þekkingu um uppruna matvæla, geymsluaðferðir og meðhöndlun. Nemendur læri að lesa úr upplýsingum á umbúðum matvæla og kennd er undirstaðan í Gámeskerfinu og þýðingu þess í matvælaframleiðslu. Nemendur læra um E efnin og reglugerð um aukaefni í matvælum og einnig hljóti þeir undirstöðuþekkingu í örverufræði og læri hvað skuli varast í þeim efnum.
Þvottur og ræsting ( hreinlætisfræði ) -HRL 1024
Markmiðið er að gera nemandann hæfan til að sjá um þrif og þvott á fatnaði og flestöllum heimilisbúnaði. Nemendur læri þrif á heimilum og vinnustað og að þeir öðlist þekkingu á hreinsi/ræsti efnum ásamt sótthreinsiefnum með tilliti til umhverfisvermdar. Nemendur læri að lesa úr þvottamerkjum, leiðbeiningum og varnaðarorðum á umbúðum. Nemendur læri einnig að dúka upp borð.
Fatasaumur – SAU 1034-2224
Nemendur læra að taka mál, leggja snið á efni og merkja fyrir saumförum. Nemendur vinna með tilbúin snið og er þeim kennt að taka snið upp úr blöðum og breyta eftir eigin máli. Nemendur læra á saumavél, og sauma m.a. einfaldar og meðal flóknar flíkur. Nemendur kynnast mismunandi fataefnum og aðferðum sem notaðar eru í fataviðgerðir og breytingar. Nemendum eru einnig kynntar aðferðir til að láta gömul föt ganga í endurnýjun lífdaga. Lagt er megináhersla á að nemendur temji sér sjálfstæð og vönduð vinnubrögð og séu í stakk búnir til að vinna eftir skriflegum leiðbeiningum og teikningum. Þessir áfangar eru kenndir saman.
Útsaumur – UTS 1034
Nemendur læra ýmsar gamlar og nýjar útsaumsaðferðir. Nemendur kynnast mismunandi efnum og útsaumsgarni auk tóla og tækja sem notuð eru. Markmiðið er að nemendur tileinki sér rétt handtök og færni til að útfæra eigin hugmyndir. Lagt er megináhersla á að nemendur temji sér sjálfstæð og vönduð vinnubrögð og séu í stakk búnir til að vinna eftir skriflegum leiðbeiningum og teikningum.
Prjón PRJ 1034
Nemendur læra að beita réttum grunnaðferðum í prjóni og öðlist skilning á efnum og aðferðum sem notaðar eru við prjónaskap. Nemendur þroski hæfileika sína til að sjá út ýmsa möguleika prjóns, lesa og skilja uppskriftir og prjóna eftir þeim. Kennd eru stærðarhlutföll á flíkum sem á að prjóna og frágang á þeim.
Vefnaður VEF 1036
Leitast er við að nemendur öðlist skilning á vefnaði, læri að þekkja mismunandi vefnaðargerðir og ná efnisþekkingu og aðferðum til að vefa algenga nytjahluti. Nemendur kynnist þeim handtökum og aðferðum sem notaðar eru við að rekja og setja upp í vefstól.
Hekl 1024
Nemendur læra undirstöðuatriði og tækni við að hekla einfalda og flóknari hluti með því að fara eftir uppskriftum og læra hvaða efni er hægt að nota í það sem heklað er.
Textílfræði
Textílfræði er ekki kennd sem sér fag, heldur feld inn í kennslu í fatagerð, útsaum, vefnað, prjón og hekli.
Prófreglur
Um leið og nemandi staðfestir umsókn sína í skólann skráist hann til prófs. Ef nemandi er veikur þegar próf er, tilkynnir hann það að morgni prófdags til skólastjóra eða kennara í viðkomandi fagi.
Ef nemandi er með lesblindu eða mikinn prófkvíða getur hann tekið skriflegt próf munnlega.
Komi nemandi meir en 10 mínútum of seint til prófs, tapar hann rétti sínum til próftöku.
Námsmat
Kennari ákveður tilhögun á prófi og hvernig prófmat fer fram.
Í öllum verklegum greinum skólans fer fram símat á vinnu nemenda og framvindun náms. Í handmenntagreinum er einnig gefið fyrir skil á verkefnum. Námsmat í hverju fagi er kynnt nemendum skriflega í upphafi annar.
Einkunnir
Við námsgjöf er notaður einkunnastigi í heilum og hálfum tölum frá 0-10. Til að nemandi standist áfanga þarf einkunn að vera 5 eða hærri, þ.e. 50% markmiða náms náð.
Lokaeinkunn er samsett úr símati og verkefnaskilum.
Bókleg fög
Falli nemandi á prófi í lok annar er hann fallinn í áfanga og fær ekki einingar fyrir áfangann.
Nemandi sem fellur á prófi fær annað tækifæri með því að taka upptökupróf um leið og sjúkrapróf er tekið.
Verkleg fög
Vægi verkefna og verkefna skila í áföngum er mismunandi eftir fögum og er ákveðið af fagkennara í samráði við skólastjóra. Utanaðkomandi prófdómar dæma í öllum verklegum prófum skólans.
Falli nemandi á prófi í matreiðslu (HUS 1036, 2036) og þvotti og ræstingu (HRL 1024) þá er nemandi ekki endilega fallinn á önninni þar sem tekið er tillit til símats og mætingar.
Falli nemandi vegna ónógra skila á verkefnum í handavinnufögum er hann fallinn í áfanganum. Undir handavinnufög falla eftirfarandi áfangar:
Fatasaumur
SAU 1034-2224
Útsaumur
UTS 1034
Prjón
PRJ 1034
Vefnaður
VEF 1036
Hekl
HEK 1024
Prófsýning
Kennarar gefa nemendum kost á að yfirfara úrlausnir sínar og ræða þær ef óskað er. Ef um skekkju í einkunnagjöf er að ræða leiðréttist það. Ef nemandi telur að gengið sé á hlut sinn og einkunn ekki réttmæt á hann rétt á að vísa máli sínu til skólameistara. Skólameistari ræðir þá við prófdómara um málið svo lausn finnist.
Námslok
Við skólaslit fá nemendur prófskírteini en þar kemur fram hvaða áfangar voru kenndir, einkunn í hverjum áfanga fyrir sig og einingarfjöldi áfanga. Nemandi er talinn hafa staðist áfanga með lágmarks einkunn 5 og fær hann engöngu einingar ef því markmiði er náð, annars ekki.
Nemendafélag
Nemendur kjósa tvo nemendur í stjórn nemendafélags ásamt tveimur meðstjórnendum. Af innritunargjaldi nemanda renna kr. 7000 í sjóð nemendafélagsins. Þessa peninga nota nemendur yfirleitt til þess að fara út að borða og á leikhússýningu. Stjórn nemendafélagsins skipuleggur einnig ýmsa aðra viðburði svo sem bíóferðir, prjónakvöld og videokvöld.
Stefna skólans í umhverfismálum
Leiðir að markmiði
Vinnu- og námsferðir
Á haustönn er farið í heilsdags berjaferð að Rauðamelsölkeldu á Mýrum. Tínd eru krækiber, bláber og hrútaber. Nemendum eru sýnd fjallagrös sem þeir læra síðar um og einnig er þeim sagt frá einiberjum og notkun þeirra.
Á hverri önn er farið í heilsdags ferðalag um Suðurland. Farið er til Þingvalla og saga Þingvalla sögð. Þaðan er farið að hellunum á Lyngdalsheiði og þeir skoðaðir, þaðan er haldið á Laugarvatn og komið að vígðu lauginni sem tengist sögu Skálholts, þangað sem haldið er næst. Á Skálholti tekur séra Egill Hallgrímsson ávallt á móti nemendum og segir sögu Skálholts. Þaðan er farið að Sólheimum og nemendum kynnt það merka starf sem þar fer fram.
Á hverri önn er farin bæjarferð og nemendum kynntur gamli bærinn og saga húsa, listaverka og merkra staða í miðbænum.
Farið er með nemendur í Ístex ullarverksmiðjuna á Álafossi þar sem nemendum er sýnt ferlið við vinnslu íslensku ullarinnar.
Matreiðsla.
Ber sem tínd eru í berjaferðinni eru sultuð og saft búin til. Einnig eru ber fryst fyrir nemendur á vorönn. Um sumarið sér matreiðslukennari og skólameistari um að taka upp og frysta rabarbara og rifsber fyrir skólann sem nemendur læra síðan að nýta.
Handavinnugreinar
Textílfræði er fléttuð inn í handmenntagreinarnar þar sem nemendur læra mun á náttúrulegum efnum og gerviefnum. Lögð er áhersla á notkun íslensku ullarinnar sérstaklega í prjóni og vefnaði.
Ræsting
Nemendur læra að ræsta með umhverfivænum og náttúrulegum efnum. Lögð áhersla á magn hreinsiefna hvað ofnotkun getur leitt af sér. Nemendur læri að meta þær upplýsingar sem koma fram á pakkningum hreinsiefna og lágmarka notkun þeirra. Áhersla er lögð á að nota hreint vatn og fíberklúta t.d. við fægingu á gleri og speglum.
Nemendur ræsta skólahúsnæðið sem er liður í ræstinámi þeirra og sjá einnig um að halda lóð skólans hreinni. Heimavistarnemendur sjá sjálfir um þrif á heimavist.
Nemendum eru hvattir til að ganga vel um bæði skólann og umhverfið.
Innkaup og umbúðir
Allar umbúðir sem koma til skólans eru endurunnar. Við skólann er sér tunna fyrir fernur og pappír einnig er farið með allan pappa í endurvinnslustöð.
Nemendur safna öllum gosflöskum sem til falla og fara með í endurvinnslu.
Stefna í áfengis- og vímuvörnum
Stefna skólans er að vera vímuefnalaus skóli en í skólareglum kemur fram að öll neysla áfengis og annarra vímuefna er stranglega bönnuð innan dyra skólans og á það einnig við um lóð skólans. Það sama gildir um notkun tóbaks. Þessi regla er samkvæmt landslögum.
Markmið
Noti nemandi eitthvert þessara vímuefna við upphaf skólagöngu er markmiðið að hann verði fráhverfur notkun þeirra áður en skóla lýkur. Þessu markmiði er náð í gegnum fræðslu og leiðbeiningum fagaðila sem skólinn veitir nemendum aðgang að.
Leiðir að markmiði
Nemendum er boðin fræðsla um vímuefni og þeim kynnt skaðsemi þeirra. Nemendum stendur ávalt til boða frekari fræðsla um vímuefni ef talin er þörf á því. Vímuefni og skaðsemi þeirra eru rædd lífsleiknitíma.
Áfangalýsingar og kennsluáætlanir námsgreina
Lífsleikni – LKN 101
Undanfari: Enginn
Áfangalýsing
Nemendur fá fjölbreytta fræðslu um ólík efni, t.d. brunavarnir, vímuefni, mannasiði, persónuleg þrif, borðsiði, berjaferð, bæjarferð, Ístex heimsótt, skólaferðalag, umræða um getnaðarvarnir og kynlíf. Tekið er fyrir jafnrétti og trúfrelsi og einnig er rætt um einelti og lausnir á því. Snyrting lóða vor og haust o.fl.
Námskeiðið í brunavörnum kenna slökkviliðsmenn og er það 5 kennslutímar. Nemendum er sýnt myndband og kynntar ólíkar gerðir slökkviliðstækja. Að lokum er kveiktur eldur utandyra og nemendur látnir slökkva eldinn.
Nemendur gefst kostur á námskeiði í þæfingu (5 kennslutímar). Þæfður er trefill ásamt
40×40 cm þæfðu efni sem notað er til að sauma barnaskó.
Kennslumarkmið
Markmiðið er að nemendur öðlist fjölbreytta fræðslu sem komi þeim til góða í lífinu og sé þeim einnig til ánægju. Nemendur öðlist víðsýni og beri virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum ásamt því að bera virðingu fyrir skoðunum annarra.
Kennsluverkefni
Berjaferð
Skólaferðalag
Heimsókn í Ístex
Námskeið í þæfingu
Brunavarnir
Borðsiðir og almenn kurteisi
Persónuleg þrif
Kynlíf og getnaðarvarnir
Vímuvarnir
Fjármál og greiðslukort
Námsmat
Lífsleikni er nám án eininga og einkunnar. Skyldumæting er hjá nemendum og ef nemendur eru með 85% mætingu standast þeir áfangann og fá S (staðist) sem staðfestingu.
Matreiðsla – HUS 1036, 2036
Undanfari: Enginn
Námsefni:
Matreiðsluhefti samantekt Hjördís Stefánsdóttir
Eldað í dagsins önn höfundur Stefanía Valdís Stefánsdóttir
Ýmis ljósrit og bæklingar
Áfangalýsing
HUS 1036 og 2036 eru kennd samhliða. Námið felst í því að nemendur fái þjálfun í grunnaðferðum í matreiðslu. Kennt er vinnuskipulag, aðferðarfræði og tækni til matargerðar. Lögð er áhersla á hreinlæti við matargerð og umgengni um eldhús en einnig er lögð áhersla á meðferð matvæla og varðveislu næringarefna við matargerð. Kennd er almenn heimilismatreiðsla ásamt fjölbreyttari og viðameiri matargerð. Lögð er áhersla á brauð og gerbakstur ásamt því að kenna nemendum annan bakstur. Nemendur læra einnig að leggja á borð og bera fram mat.
Kennslumarkmið
Markmið náms er að nemendur fái þekkingu og þjálfun í grunnmatreiðslu og bakstri og geti nýtt sér þekkingu sína til að elda allan almennan heimilismat ásamt því að geta nýtt sér námið til að afla sér frekari þekkingar og menntunar á sviði matvæla.
Áhersla er lögð á hreinlæti, vinnuskipulag og vinnuaðferðir og að nemandi hafi að loknu námi góða þekkingu á hráefni og meðferð þess. Nemandi hafi kunnáttu til að áætla magn matvæla til matargerðar ásamt því hvernig best er að matreiða hráefni með tilliti til varðveislu næringarefna. Nemendur læri að framreiða mat bæði fyrir veislu og hversdags og öðlist þekkingu í veislusiðum sem einnig tengist áfanganum um lífsleikni, ásamt almennum borðsiðum.
Kennsluáætlun
Í upphafi annar byrjar helmingur nemenda í eldhúsinu og er þar hálfa önnina. Við komu í eldhús er nemendum skipt niður á viss númer en númerið tilgreinir það vinnusvæði sem nemandi vinnur í og hefur ákveðnum störfum að gegna á því svæði. Vikulega, þ.e. hvern mánudag, skiptir nemandi um númer og færist yfir á annað vinnusvæði og fær önnur verkefni til að vinna. Númerinn eru þrjú og þetta tryggir að nemandi fái kennslu á öllum verkþáttum sem kenndir eru í eldhúsinu.
Nemendur fá eyðublað sem þeir merkja inn á jafnóðum til að tryggt sé að þeir hafi lokið öllum þeim verkefnum sem lagt var upp með.
Þegar nemendur eru að ljúka tímabilinu í eldhúsi býður hver þeirra 3-4 gestum til veislu sem haldin er á föstudagskvöldi. Þarna hafa nemendur tækifæri að sýna kunnáttu sína.
Kennsluverkefni
Útfærsla á áfanga er misjöfn eftir árstíðum en á haustin er sláturgerð ásamt almennum hauststörfum hvað varðar jarðargróður. Á haustönn er einnig undirbúningur jóla, t.d. laufabrauðsgerð og annað sem tilheyrir þeim tíma. Á vorönn er námið sniðið að bolludegi og sprengidegi ásamt páskum.
Það helsta sem tekið er fyrir í náminu er eftirfarandi:
Heimilismatur
Ítalskur matur
Mexikóskur matur
Austurlenskur matur
Smurt brauð
Afmæliskaffi
Súpur og brauð
Smáréttir
Afgangar nýttir
Sultu- og saftgerð
Smáköku og kleinubakstur
Veisla fyrir 70-80 manns
Opið hús er einu sinni á önn þar sem allir nemendur hjálpast að í eldhúsi og borðstofu við að sjá um kaffi og kökuveitingar.
Verkefnaskil
Nemendur fá möppur þar sem safnað er saman öllum ljósritum, glósum og blöðum með ýmsum upplýsingum sem varða kennslu í eldhúsinu ásamt matseðlum. Nemendur merkja jafnóðum inn á yfirferðarlista verkefni og aðferðir sem þeir hafa lært og tryggja að skoða listann reglulega ásamt kennara til að sannreyna að ekkert vanti inn í námið.
Hafi nemandi verið veikur eða ekki getað verið í tíma fær hann tækifæri til að vinna upp það sem upp á vantar.
Í lok annar skilar nemandi verkefnamöppu til prófs.
Námsmat
Metin eru vinnubrögð, áhugi, frágangur og umgengni ásamt framför sem nemandi hefur sýnt yfir tímabilið. Tekið er tillit til mætingar ásamt mætingu þeirra sem sjá um morgunmat. Vinnumappa er einnig metin.
Verklegt próf er haldið. Í matreiðsluprófi er utanaðkomandi prófdómari
Lokaeinkun skiptist upp á eftirfarandi hátt:
30% lokaeinkunnar byggir á mati kennara yfir kennslutímabilið.
10% verkefnamappa
20% mæting
40% próf
Næringarfræði – NÆR 1012
Undanfari: Enginn
Námsefni: Næring og hollusta, höfundur Elísabet Magnúsdóttir
Áfangalýsing
Lögð er áhersla á að nemendur öðlist þekkingu á næringarefnunum og gildi þeirra fyrir líkamann og heilbrigt líf. Nemendur læra um ráðlagða dagskammta, manneldismarkmið og að velja rétt matvæli og matreiðsluaðferðir til að næringarefnin spillist sem minnst. Nemendur læra að nota næringarefnatöflur, reikna út hitaeiningar og næringargildi fæðunnar. Lögð er áhersla á að nemendur þekki hvað transmettaðar fitusýrur séu og í hvaða fæðutegundum þær er helst að finna ásamt því hvað er mettuð fita. Nemendur læri einnig að gera greinarmun á mismunandi tegundum kolvetna t.d. hvítum sykri, ávaxtasykri eða mjölvöru. Nemendur læri um mismunandi fæðu og orkuþörf manna eftir starfi, aldri og heilsu. Einnig er farið í hver er munurinn á skyndibitafæðu og heimalöguðum mat úr fersku hráefni.
Kennslumarkmið
Markmið námsins er að nemandi viti hvar næringarefni, vítamín og steinefni sé að finna. Geri sér grein fyrir hlutverki næringarefna fyrir líkamann ásamt hvaða afleiðingar skortur tiltekinna vítamína eða steinefna geta haft. Nemendur eiga að þekkja fæðuflokkanna, hitaeiningagildi þeirra og hlutverk þeirra ásamt hvaða næringu við fáum úr þeim.
Með þessari þekkingu eiga nemendur að geta áttað sig á næringargildi, hitaeiningum og hollustu fæðutegunda með því að lesa utan á umbúðir matvæla.
Að námi loknu á nemandi að geta nýtt sér þekkingu sína sér og öðrum til hagsbóta.
Kennsluverkefni
Nemendur vinna spurningar sem eru til staðar í verkefnabók í lok hvers kafla og skila til kennara.
Verkefnaskil
Nemendur skila svörum við kaflaspurningum í lok yfirferðar hvers kafla fyrir sig. Skila skal svörunum áður en yfirferð næsta kafla hefst.
Námsmat
Lokaeinkun skiptist upp á eftirfarandi hátt:
Lokapróf 60%
Verkefni 20%
Mæting 20%
Vörufræði – VOR 1012
Undanfari: Enginn
Námsefni: Vörufræði 1 höfundur Bryndís Steinþórsdóttir
Áfangalýsing
Fjallað er um matvörur, hvaðan þær eru upprunar og vinnsluferli við framleiðslu þeirra. Nemendum er gerð grein fyrir náttúrulegum og lífrænt ræktuðum matvörum og læra einnig sögu matvara, þróun gegnum tíðina og breytingar á vinnslu matvara með aukinni þekkingu á næringarefnum en þar er alltaf eitthvað nýtt að koma fram.
Nemendur læra að lesa út úr upplýsingum á pakkningum s.s. hvað er síðasti neysludagur og síðasti söludagur og vega og meta þessar upplýsingar. Farið eru yfir Gámeskerfið og þýðingu þess fyrir matvælaiðnaðinn. Nemendur læra um E efnin, afhverju E efni eru sett í matvæli og flokkun þeirra. Nemendum er einnig kynntar reglugerðir varðandi aukaefni.
Kennslumarkmið
Markmið áfangans er að nemendur þekki matvöru og uppruna þeirra og að nemendur hafi þekkingu til að velja matvörur sem uppfylli allar hollustukröfur hvað varðar næringu og hreinleika. Markmið er einnig það að nemendur láti ekki auglýsingar hafa áhrif á val þeirra á matvörum, heldur afli upplýsinga um sannleiksgildi þeirra. Nemandi á að geta lesið úr og skilið þær upplýsingar sem eru á umbúðum matvara.
Námsmat
Lokaeinkun skiptist upp á eftirfarandi hátt:
Próf 80%
Mæting 20%
Þvottur og ræsting – HRL 1024
Undanfari: Enginn
Námsefni: Vinnulýsingar sem er samantekt kennara (mappa), ásamt leiðbeiningabæklingum frá leiðbeiningastöð heimilanna, t.d. um blettahreinsun og þvottamerkingar.
Áfangalýsing
Nemendur eiga að geta skipulagt og valið efni til ræstinga á heimahúsum sem og á tækjum og áhöldum. Einnig að nemandi geti ræst og hreingert hús ásamt húsbúnaði, fatnaði og persónulegum munum. Nemendur eiga að geta valið ræstiefni og sótthreinsiefni með tilliti til umhverfisvermdar og læri skammtastærðir og að fara varlega með sterk hreinsiefni.
Nemendur eiga að geta dúkað og lagt á borð fyrir veislur og margréttaðar máltíðir ásamt því að leggja á borð hversdags.
Kennslumarkmið
Markmið náms er að nemendur séu færir um að sjá um daglega ræstingu og þrif á heimilum og geri sér grein fyrir mikilvægi umhverfisvænna aðferða við ræstingar og val á hreinsiefnum.
Nemendur eiga að hafa skilning á mismunandi gerðum þvotta og hreinsiefna og geti lesið úr þvotta leiðbeiningum á flíkum og nota viðeigandi aðferðir. Einnig eiga nemendur að geta blettahreinsað fatnað og húsmuni og þurfa að skilja hvað átt er við með persónulegu hreinlæti, bæði hvað varðar líkamann sjálfann og fatnað.
Kennsluverkefni
Þrif og tiltekt í stofu, eldhúsi, sjónvarpsherbergi, handavinnustofu, stigagöngum, þvottahúsi, snyrtingum, geymslum, strauherbergi og svefnherbergi. Þvottur og meðferð á fatnaði og skólaþvotti ásamt frágangi. Í lok annar er hreingerning á skólahúsnæði. Nemendum er kennt hvaða hreinsiefni og tæki henta með tilliti hvað er verið að hreinsa. Nemendur hafa einnig umsjón með borðstofu á fimmtudögum (þá er yfirleitt þríréttað) og einnig fyrir foreldraboð. Nemendur fá yfirferðarlista þar sem þeir merkja við verkefni sem unnin hafa verið.
Auk þessa læra nemendur eftirfarandi:
Strauja rúmfatnað
Strauja dúka
Strauja skyrtur og blússur
Pressa buxur og jakka
Strekkja dúk
Þvo ullarflík
Bursta skó
Hengja upp og brjóta saman þvott og ganga frá
Fægja málma.
Setja í þvottavél velja þvottakerfi og hæfilegt magn þvottaefnis.
Leggja á borð bæði með dúkum og diskamottur ásamt því að brjóta servéttur.
Námsmat
Lokaeinkunn skiptist upp á eftirfarandi hátt:
Próf 90%
Mæting 10%
Fatasaumur – SAU 1034
Undanfari: Enginn
Fatasaumur : 4 einingar og 1 eining á heimavinnu
Námsefni:
Saumahandbókin (neue mode) þýðing Fríður Ólafsdóttir.
Handbækur saumavéla.
Haust 2011. Verklýsingar í útsaum og fatasaum. Kennsluhefti unnið af Kristbjörgu Hermannsdóttur.
Áfangalýsing
Nemendur læra að leggja snið á efni, merkja fyrir saumförum og klippa eftir sniði. Nemendur vinna með tilbúin snið og sauma einfaldar og meðalflóknar flíkur. Nemendur læra algengustu aðferðir við fatasaum, s.s. rykkingar, faldar, hnappagöt, ísetning rennilása, fóður í berustykki, föll og vinnslu utanáliggjandi vasa. Nemendur kynnast mismunandi efnum, fastofnum og teygjanlegum. Nemendur læra að þekkja muninn á náttúrulegum efnum og gerviefnum og geti tilgreint: kosti þeirra og galla, þvottameðferð, umhirðu og ástæðu fyrir blöndun trefjanna. Nemendur læra heiti á helstu fataefnum og geti lýst þeim lítillega. Nemendur læra ísetningu milliverks í sængur ver og harðangurshorns í koddaver. Nemendur læra á saumavél og fylgihluti hennar s.s. mismunandi nálategundir. Lagt er áhersla á að nemendur temji sér sjálfstæð og vönduð vinnubrögð og séu í stakk búnir til að vinna eftir skriflegum leiðbeiningum og teikningum. Skil á heimavinnu er metið til einkunnar.
Kennslumarkmið
Að námi loknu á nemandi að geta lagt snið á efni og saumað einfalda flík. Jafnframt á nemandi að hafa vald á möguleikum saumavélar, tólum og tækjum sem nauðsynleg eru við saumaskap og geta unnið eftir leiðbeiningum og vinnuteikningum.
Kennsluverkefni
Farið yfir saumavélina, kynnt nauðsynleg áhöld, hugtök og merking þeirra.
Jersey barnapeysa saumuð.
Saumatækni
• Saumað í teygjanlegt efni.
• Saumað með tvíburanál.
• Einbrotinn faldur.
• Ísetning erma.
• Hálslíning.
• Frágangur kanta.
Barnakjóll saumaður.
Saumatækni
• Unnið með fastofið efni, fóður og tjull.
• Rykking.
• Falinn rennulás.
• Tvíbrotinn faldur.
• Föll.
• Frágangur kanta.
• Fóðrað berustykki með flíselíni.
Barna smekkbuxur saumaðar.
Saumatækni
• Unnið með flauel eða gallaefni.
• Hnappagöt og tölur.
• Utan á liggjandi vasar.
• Tvíbrotinn faldur.
• Frágangur kanta.
• Stunga.
Vöggusett
Saumatækni
• Tvíbrotinn faldur.
• Ísetning bendlabanda og blindspor.
• Saumað lek.
• Stunga.
• Frágangur kanta.
• Ísetning milliverks.
• Ísetning horns.
• Frágangur með skrautkanti.
• Frágangur með umslagsaðferðinni.
Greinagóðar verklýsingar og tilbúin snið fylgja öllum verkefnum.
Verkefnaskil
Nemendur skila fullunnum verkefnum. Verkefnum á að skila hreinum, straujuðum eða pressuðum. Skil á verkefnum eru tilgreind í kennsluáætlun og ber nemanda að skila verkefnum að morgni þess dags sem tilgreindur er.
Hópur A skilar:
Jersey peysu í lok fyrstu viku.
Barnakjól og smekkbuxum í byrjun fjórðu viku.
Vöggusetti í byrjun sjöttu viku.
Hópur B skilar:
Jersey peysu í byrjun annarrar viku eftir skipti.
Barnakjól og smekkbuxum í byrjun fjórðu viku eftir skipti.
Vöggusetti í byrjun sjöundu viku fyrir skipti.
Ætlast er til heimavinnu af nemendum. Seinkun á skilum verkefna kemur fram í einkunn. Skili nemandi ekki skylduverkefnum, dragast þau frá sem nemur hlutfalli af heildareinkun auk þess sem nemandi fær ekki einingu sem gefin er fyrir heimavinnu.
Réttur til breytinga áskilinn.
Námsmat
Sjá upplýsingar í SAU 2224 en námskeiðin eru kennd samhliða og ein einkunn gefin fyrir bæði fögin.
Fatasaumur – SAU 2224
Undanfari: Enginn.
Kennt samhliða SAU 1034
Námsefni:
Saumahandbókin (neue mode) þýðing Fríður Ólafsdóttir.
Haust 2011. Verklýsingar í útsaumi og fatasaumi. Kennsluhefti unnið af Kristbjörgu Hermannsdóttur.
Tískublöð.
Áfangalýsing
Nemendur læra að taka mál. Nemendur vinna með snið úr blöðum og breyta eftir eigin máli. Nemendur velja sér verkefni sem inniheldur a.m.k. tvö af eftirtöldum tækniatriðum: rennilás, hnappagat, strengur, sniðsaumur, fellingar, lek, rykking, vasar, blindfaldur og fóður. Ekki er leyfilegt að velja sér flík úr teygjanlegu efni í þetta verkefni. Nemendur sauma skírnarkjól að eigin vali og bæta við saumatæknina atriðum eins og loksaum og vinnu með skáband. Nemendum eru kynntar aðferðir sem notaðar eru í fataviðgerðir og breytingar. Nemendum eru einnig kynntar aðferðir til að láta gömul föt ganga í endurnýjun lífdaga. Lagt er áhersla á að nemendur temji sér sjálfstæð og vönduð vinnubrögð og séu í stakk búnir til að vinna eftir skriflegum leiðbeiningum og teikningum. Skil á heimavinnu er metin til einkunnar.
Kennslumarkmið
Að námi loknu á nemandi að geta ákveðið rétta sniðstærð eftir líkamsmálum, notfært sér tískublöð og tilbúin snið. Nemandi á að hafa náð meiri færni í saumatækni og öðlast aukið sjálfstæði í fatagerð.
Kennsluverkefni
Flík að eigin vali sem inniheldur a.m.k. tvö af eftirtöldum tækniatriðum:
• Rennilás
• Hnappagat
• Strengur
• Sniðsaumur
• Fellingar
• Lek
• Rykking
• Vasar
• Blindfaldur
• Fóður
Skírnarkjóll saumaður
Saumatækni (mismunandi eftir því hvaða gerð nemandi velur að sauma)
• Loksaumur
• Skáband
• Rykking
• Tvíbrotinn faldur
Greinagóðar verklýsingar fylgja öllum verkefnum og snið af mismunandi skírnarkjólum.
Verkefnaskil
Nemendur skila fullunnum verkefnum. Verkefnum á að skila hreinum, straujuðum eða pressuðum. Skil á verkefnum eru tilgreind í kennsluáætlun og ber nemanda að skila verkefnum að morgni þess dags sem tilgreindur er.
Hópur A skilar:
Stóra saumaverkefninu í byrjun sjöundu viku.
Skírnarkjólnum í lok fimmtu viku eftir skipti.
Hópur B skilar:
Stóra saumaverkefninu í byrjun sjöundu viku eftir skipti.
Skírnarkjólnum í lok sjöttu viku eftir skipti.
Ætlast er til heimavinnu af nemendum. Seinkun á skilum verkefna kemur fram í einkunn. Skili nemandi ekki skylduverkefnum, dragast þau frá sem nemur hlutfalli af heildareinkunn auk þess sem nemandi fær ekki einingu sem gefin er fyrir heimavinnu.
Réttur til breytinga áskilinn.
Mat einstakra verkefna
Máltaka og vinna með snið 5%
Barnakjóll 10%
Barnabuxur 10%
Barnapeysa 5%
Kjóll/pils 30%
Vöggusett 10%
Skírnarkjóll 10%
Ástundun 10%
Skil verkefna 10%
Námsmat
Áfangarnir eru próflausir. Frumkvæði, handbragð og afköst eru metin yfir önnina. Í lok annar fer fram heildarmat og gefin sameiginleg lokaeinkun fyrir báða saumaáfangana. Nemendur verða að ljúka báðum áföngum enda eru þeir kenndir samhliða.
Réttur til breytinga áskilinn.
Útsaumur – UTS 1034
Undanfari: Enginn
Útsaumur : 2 einingar og 1 eining fyrir heimavinnu
Námsefni:
Verklýsingar í útsaum og fatasaum. Kennsluhefti unnið af Kristbjörgu Hermannsdóttur.
The Embroidery Stitch Bible. Höfundur Betty Barnden.
Áfangalýsing
Nemendur læra ýmsar gamlar og nýjar útsaumsaðferðir. Nemendur kynnast mismunandi efnum og útsaumsgarni auk tóla og tækja sem notuð eru s.s. til yfirfærslu mynstra. Nemendur læra að þekkja muninn á náttúrulegum efnum og gerviefnum og geti tilgreint: kosti þeirra og galla, þvottameðferð, umhirðu og ástæðu fyrir blöndun trefjanna. Nemendur læra heiti á helstu útsaumsefnum og geti lýst þeim lítillega. Markmiðið er að nemendur tileinki sér rétt handtök og færni til að útfæra eigin hugmyndir. Lagt er megináhersla á að nemendur temji sér sjálfstæð og vönduð vinnubrögð og séu í stakk búnir til að vinna eftir skriflegum leiðbeiningum og teikningum. Skil á heimavinnu er metin til einkunnar.
Kennslumarkmið
Að viðhalda gömlu handverki og vekja áhuga nemenda á því. Að námi loknu á nemandi að geta unnið eftir leiðbeiningum og vinnuteikningum og útfært sínar eigin hugmyndir á fatnað og annan textíl.
Kennsluverkefni
Nálapúði
• Unnið er með einskeftu blandað efni
• Þræðing og staðsetning mynsturs
• Krosssaumur
• Rykking með þræðispori
Nálabók
• Unnið er með fíngert hör efni
• Borðaútsaumur og perlur
• Frágangur á ská hornum með blindspori
Vöggusett
• Milliverk og horn saumað í harangursjafa
• Þræðing og staðsetning miðju
• Harðangur og klaustursaumur
• Val um gatasaum
Brauðdúkur
• Undanfari milliverks
• Saumað í bómullarjafa
• Staðsetning miðju
• Harðangur og klaustursaumur
• Frágangur á kanti með tvíbrotnum faldi og gatasaum
• Kynning á sögu harðangurssaums
Prufur fyrir skírnakjól
• Unnið í léreft annarsvegar og tjull hinsvegar
• Nemendur geta í kjölfarið valið sér skírnarkjól sem þeir vilja sauma
• Mismunandi spor
• Tjullsaumur og grunnar
• Prikk aðferðin og yfirfærsla mynsturs á efni
Skírnakjóll
• Nemendur velja sér snið og aðferð, þ.e. léreftskjól eða tjull kjól með satín undirkjól
• Saumatækni fer eftir vali nemenda
Flókaskór
• Verkefni sem nemendur vinna að öllu leyti sjálfir
• Nemendur nota flókaprufur sem þeir unnu með kennara fyrr á önninni
• Nemendur velja sér sjálfir snið og sauma skóna saman í höndum og skreyta
Saumasteinn
• Unnið m.a. úr afgangs bútum
• Crazy Quilt tækni
• Mismunandi spor og samsetning spora
• Kynning á sögu crazy quilt tækninnar
• Borðaútsaumur og perlur
• Þrívíddarvinna
• Frágangur með blindspori
Verkefnaskil
Nemendur skila fullunnum verkefnum. Verkefnum á að skila hreinum, straujuðum eða pressuðum. Skil á verkefnum eru tilgreind í kennsluáætlun og ber nemanda að skila verkefnum að morgni þess dags sem tilgreindur er.
Hópur A skilar:
Nálapúði í byrjun annarar viku.
Brauðdúkur í lok þriðju viku.
Tjull- og léreftsprufa í byrjun sjöttu viku.
Vöggusetti í byrjun sjöttu viku.
Nálabókinni í lok sjöundu viku.
Flókaskór í lok fyrstu viku eftir skipti.
Saumastein í byrjun þriðju viku eftir skipti.
Skírnakjól í lok fimmtu viku eftir skipti.
Hópur B skilar:
Nálapúði í byrjun annarar viku.
Brauðdúkur í byrjun þriðju viku.
Vöggusetti í byrjun sjöundu viku.
Flókaskóm í lok sjöundu viku.
Saumasteini, tjull- og léreftsprufa í lok fyrstu viku eftir skipti.
Skírnakjól í lok sjöttu viku eftir skipti.
Nálabókinni í lok sjöundu viku eftir skipti.
Ætlast er til heimavinnu af nemendum. Seinkun á skilum verkefna kemur fram í einkunn. Skili nemandi ekki skylduverkefnum, dragast þau frá sem nemur hlutfalli af heildareinkunn auk þess sem nemandi fær ekki einingu sem gefin er fyrir heimavinnu.
Mat einstakra verkefna
Nálapúði 5%
Nálabók 10%
Vöggusett 20%
Brauðdúkur 5%
Prufur fyrir skírnakjól 5%
Skírnakjóll 20%
Flókaskór 5%
Saumasteinn 10%
Ástundun 10%
Skil verkefna 10%
Námsmat
Áfanginn eru próflaus. Frumkvæði, handbragð og afköst eru metin yfir önnina. Í lok annar fer fram heildarmat og gefin lokaeinkunn.
Réttur til breytinga áskilinn.
Prjón – PRJ 1034
Undanfari: Enginn.
2 einingar auk þess 1 eining fyrir heimavinnu.
Námsefni.
Prjónabækur Ístex og Lærið að prjóna
Ýmsar aðrar prjónabækur og ljósrit.
Áfangalýsing
Nemendur læra að beita réttum grunnaðferðum við að prjóna og þjálfist í að lesa úr og skilja einfaldar og flóknar prjónauppskriftir. Kenndar eru helstu aðferðir í prjóni eins og slétt og brugðið, gataprjón, kaðlaprjón og garðaprjón. Nemendur læra fjölbreyttar úrtökuaðferðir og kennt að sjá út stærðarhlutföll eftir því hvaða garn og prjónastærðir eru notaðar. Kenndur er frágangur á flíkum og öðru því sem nemendur prjóna.
Nemendur fá möppu þar sem þeir safna saman öllum uppskriftum og upplýsingum sem þeir fá frá kennara.
Kennslumarkmið
Markmið námsins er að nemendur öðlist færni í að prjóna flíkur og aðra nytjahluti sér til gagns og ánægju sem og að frumkvæði og sköpunargleði nemenda aukist.
Kennsluverkefni
Eftirfarandi verkefni eru unnin í áfanganum:
Prjónaðir lopasokkar, slétt og brugðið stroff, hæll prjónaður og úrtaka.
Prjónuð barnahúfa með gataprjóni.
Lopapeysa að eigin vali sem nemandinn prjónar á sjálfann sig.
Vettlingar þar sem nemandi teiknar munstur sjálfur og prjónar eftir.
Nemendum gefst kostur á að gera ýmis aukastykki í prjóni.
Mat einstakra verkefna
Sokkar og lopahúfa með munstri 20%
Barnahúfa gataprjóni 15%
Lopapeysa 40%
Vettlingar 15%°
Mappa og mæting 10%
Námsmat
Áfanginn eru próflaus. Nemendur skila öllum verkefnum frágengnum og þvegnum til prófmats og einkunnargjafar. Nemendur þurfa að skila öllum skyldustykkjum til að standast áfangann ásamt verkefnamöppu. Metin eru vinnubrögð, vandvirkni og ástundun.
Vefnaður – VEF 1036
Undanfari: Enginn
Námsefni: ýmis vefnaðarblöð og ljósrit frá kennara.
Áhaldafræði: Unnin af kennara.
Áfangalýsing
I vefnaði kynnast nemendur ýmsum vefnaðargerðum t.d. einskeftu, vaðmáli og nokkrum öðrum flóknari vefnaðaraðferðum. Farið er yfir þau handtök og aðferðir sem notaðar eru við að rekja og setja upp í vefstól. Nemendur læra að þekkja ýmsar vefnaðargerðir og fá tilsögn í textílfræði hvað varðar efnisval í stykki sem vefa á. Nemendur læri heiti á helstu hlutum vefstóls og þeim hjálpartækjum sem notuð eru í vefnaði.
Kennslumarkmið
Að nemandi kynnist vefstólum, fræðist um sögu hans gegn um tíðina og fái undirstöðu þekkingu í vefnaði og áhugi hans sé vakin til að afla sér frekari menntunnar á þessu sviði.
Kennsluverkefni.
Nemendur skila fjórum ofnum skyldustykkjum sem eru.
Barnateppi.
Værðarvoð (stór)
Rósaband (löber á borð eða til að hengja upp á vegg)
Trefill, teppi, gólfmotta eða eitthvað annað af eigin vali
Nemendum gefst kostur á að gera aukastykki.
Verkefnaskil
Nemendur skila öllum fjórum ofnu verkefnunum þvegnum og eða pressuðum. Nemendur skila verkefnamöppu.
Mat einstakra verkefna
Rósaband 20%
Værðarvoð 20%
Barnateppi 20%
Stykki að eigin vali, uppsetning og mæting 40%
Námsmat
Áfanginn er próflaus og verkefni nemenda eru metin til einkunnar. Lagt er mat á vandvirkni, frágang, áhuga, mætingu og möppu. Skili nemandi ekki öllum skyldustykkjum stenst hann ekki áfanga.
Hekl – HEK 1024
Undanfari: Enginn
Námsefni: Ýmis blöð og ljósrit
Áfangalýsing
Nemendur læra helstu undirstöðuaðferðir í hekli og læra að hekla einfalda hluti og flóknari. Nemendur læra einfalda og tvöfalda stuðla, fastapinna og loftlykkjur. Nemendur læra að lesa uppskriftir af hekli, skilja munstur og skammstafanir og öðlist sjálfstæði og færni við að meðhöndla heklunál og vinna með henni.
Kennslumarkmið
Markmið náms er að gera nemendum kleift að hekla flíkur og aðra nytjahluti. Einnig er ætlast til að nemendur læri að lesa úr uppskriftum og geti unnið eftir þeim.
Kennsluverkefni
Nemendur hekla ilmpoka ásamt pottaleppum sem eru heklaðir í hring með takka hekli utan um. Einnig hekla nemendur stórt sjal með flóknu munstri þar sem þeir fá mikla æfingu að vinna með heklunálina. Nemendur hafa tækifæri til að gera aukaverkefni í hekli ef vilja.
Mat einstakra verkefna
4 mismunandi prufur 20%
Smekkur 20%
Barnateppi 45%
Mæting og vinnumappa 15%
Námsmat
Ekkert próf er í þessum áfanga. Nemendur skila skyldustykkjum til einkunnagjafar.
Stykkin skulu vera þvegin og vel gengið frá öllum endum.
Handbragð, virkni í tímum og mæting reiknast inn í einkunn ásamt vinnumöppu.
Skili nemendur ekki öllum skyldustykkjum standast þeir ekki áfanga.